frett12.jpg

Boðskort í sólina

Boðskort í sólina: Gríðarlega mikill heiður fyrir íslenskan snóker

Gunnar Hreiðarsson og Guðni Þormar Pálsson verða fulltrúar Íslands í glænýrri 24 þjóða liðakeppni á vegum IBSF og er ætlunin að þessi viðburður fari fram árlega. Mótið hlýtur nafnið World Team Cup og verður haldið í Katar dagana 27. febrúar til 2. mars.

Ástæðan fyrir boðskorti alþjóða snókersambandsins til Íslands er auðvitað glæsilegur árangur Kristjáns Helgasonar og Jóns Inga Ægissonar á EM í Albaníu í fyrra en þar gerðu þeir sér lítið fyrir og urðu Evrópumeistarar í liðakeppni.

Herra 147 og Suðurnesjatröllið afþökkuðu hins vegar ferðalag í olíuríkið en þeir einblína á þátttöku í World Snooker Championship mótinu á Möltu í næsta mánuði. Þar eru gómsætir og girnilegir vinningar í boði en nánar um það síðar.

Eftir að Kristján og Jón Ingi höfðu gengið úr skaftinu varð til "smá hausverkur" fyrir stjórn BSÍ að velja leikmenn með skömmum fyrirvara í þetta verkefni. En eftir ágæta yfirlegu þótti sanngjarnt og viðeigandi að bjóða Gunnari og Guðna þennan þátttökurétt.

Gunnar Hreiðarsson varð Íslandsmeistari árið 2008 og er ríkjandi stigameistari í bæði opna -og 40+ flokknum frá síðasta tímabili. Á þessari leiktíð er Gunni einnig mjög ofarlega á báðum listum en hann hefur lítið spilað í útlöndum. Þetta er því kærkomið tækifæri fyrir kappann að fá smjörþefinn af spilamennsku á erlendri grundu.

Guðni Pálsson er ríkjandi meistari í tvíliðaleik ásamt Þorra Jenssyni en bílasalinn okkar hefur átt virkilega gott tímabil. Hann varð bikarmeistari í desember og vann sitt fyrsta stigamót á ferlinum í opna flokknum strax í byrjun janúar. Þess má líka geta að Guðni og Gunni hafa verið þéttir æfingafélagar í vetur og er ég sannfærður um að þeir eigi eftir að verða flottir og glæsilegir fulltrúar okkar, landi og þjóð til sóma. Gangi ykkur sem allra best drengir ! Áfram Ísland !