frett1.jpg

Úrslit 5. stigamóts tímabilið 2017/2018

Guðni Þormar Pálsson varð hlutskarpastur á 5. stigamóti tímabilsins sem leikið var á Billiardbarnum um liðna helgi. Guðni hefur verið í hópi bestu spilara landsins um langa hríð en loksins landaði hann sínum fyrsta stigamótstitli í opna flokknum er hann bar sigurorð af Ásgeiri Guðbjartssyni í úrslitaleik 4-2.

Spilamennskan hjá Guðna hefur verið á mikilli uppleið. Hann vann sitt fyrsta stigamót í fyrra, þá í 40+ flokknum þegar Jón Ingi var lagður 4-0 í úrslitaleik. Núna hefur Guðni unnið tvö mót í röð en hann sigraði einnig Ásgeir í úrslitaleik í Bikarmótinu í byrjun desember, mjög sannfærandi 4-0.

Það skal þó ekki tekið af Ásgeiri að hann hefur líka átt góðu gengi að fagna á þessu tímabili. Ásgeir hefur tekið þátt í 4 af 5 stigamótum vetrarins og komist tvisvar í úrslitaleikinn og tvisvar í undanúrslit.

Í heildina hefur hann því spilað þrjá úrslitaleiki á tímabilinu ef bikarmótið er tekið með en ekki náð að komast alla leið enn. Spurning hvort Ásgeir hljóti viðurnefnið Silfurrefurinn í lok tímabilsins með þessu áframhaldi?

Í lokin finnst mér það fagnaðarefni að við séum að fá ný og gömul andlit í snókerinn. Kylfingurinn og Íslandsmeistarinn í höggleik frá 1993, Þorsteinn Hallgrímsson átti virkilega flott mót og komst í 8 manna úrslit. Skúli Magnússon lét aftur sjá sig eftir þriggja ára fjarveru og einnig eru strákar undir tvítugt að mæta í mótin, þó vissulega mættu þeir vera fleiri.

27 leikmenn voru skráðir í mótið um helgina og verður það að teljast ágætis mæting í upphafi árs. Vonandi heldur þessi góða þátttaka áfram á nýju ári því þetta einmitt það sem snókerinn þarf hér á landi, fleiri íslenska spilara. Sjáumst hressir í næsta móti, gleðilegt nýtt ár snókerfélagar og innilega til hamingju Guðni Þormar Pálsson með áfangann.